Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Raforkuöryggi Seyðfirðinga eykst til muna með nýjum stjórnbúnaði í Fjarðarárvirkjunum

Umtalsverðar endurbætur og uppfærsla stjórnbúnaðar í Fjarðarárvirkjunum hafa gert það að verkum að í fyrsta sinn í sögunni er hægt að keyra Seyðisfjörð í svokölluðum eyjarekstri ef tenging við meginflutningskerfi Landsnets rofnar.

Hsorka Fjardara 0151 (1) (1)
Bjólfsvirkjun er neðri virkjun Fjarðarár. Efri virkjunin nefnist Gúlsvirkjun og er hún talsvert ofar í ánni. Hvíta húsið á meðfylgjandi mynd er gamla Fjarðarselsvirkjun sem tekin var í notkun 1913.

Umtalsverðar endurbætur og uppfærsla stjórnbúnaðar í Fjarðarárvirkjunum hafa gert það að verkum að í fyrsta sinn í sögunni er hægt að keyra Seyðisfjörð í svokölluðum eyjarekstri ef tenging við meginflutningskerfi Landsnets rofnar. Starfsmenn HS Orku og RARIK gerðu prófanir á nýja búnaðinum fyrir nýliðna helgi og tókust þær vel. Við þessa aðgerð stóreykst raforkuöryggi Seyðfirðinga.

HS Orka keypti Fjarðarárvirkjanir síðastliðið sumar og hefur frá þeim tíma verið unnið í ýmsum endurbótum auk þess sem stjórnbúnaður virkjananna hefur verið endurnýjaður. Þeim er nú hægt að fjarstýra og þannig er betur mögulegt að stýra álagi, tíðni og spennu ef til straumrofs kemur.

Raforkan alltaf nýtt af Seyðfirðingum

Frá því að Fjarðarárvirkjanirnar tvær, Gúlsvirkjun og Bjólfsvirkjun, voru gangsettar árið 2009 hefur öll framleiðsla þeirra farið í gegnum aðveitustöð RARIK á Seyðisfirði og verið nýtt á Seyðisfirði. Ef raforkunotkun Seyðfirðinga hefur verið minni en sem nemur framleiðslunni hefur viðbótarframleiðslan farið inn á flutningskerfi Landsnets og verið nýtt í landskerfinu í gegnum flutningslínu sem liggur yfir Fjarðarheiði og þaðan inn í aðveitustöð Landsnets við Eyvindará.

Í þeim tilfellum þar sem raforkunotkun Seyðfirðinga hefur verið meiri en framleiðsla Fjarðarárvirkjana hefur raforka verið flutt til Seyðisfjarðar um línuna yfir Fjarðarheiði. Þau tilfelli hafa nær eingöngu verið bundin við það þegar bræðsla stendur yfir í fiskimjölsverksmiðju SVN.

Dísellausnir heyri sögunni til

Þegar rof hefur til þessa orðið á flutningslínu Landsnets yfir Fjarðarheiði, og þar með við landskerfið, hafa Fjarðarárvirkjanir ekki ráðið einar við að keyra Seyðisfjörð sem eyju þar sem gamli stjórnbúnaðurinn var ekki hannaður til þess. Þar með er ekki sagt að virkjunin hafi ekki gagnast Seyðfirðingum í bilunum í meginflutningskerfinu. Til að reka Seyðisfjörð sem eyju þurfti RARIK að keyra hluta af álaginu með díselvélum til að stýra tíðni og spennu en Fjarðarárvirkjanir framleiddi eftir sem áður megnið af orkunni. Eftir betrumbætur HS Orku á virkjununum heyra slíkar dísellausnir væntanlega sögunni til.