-
55
MWe
Uppsett afl
-
320
GWh
Ársframleiðsla

VesturVerk, sem er í meirihlutaeign HS Orku, hefur um árabil unnið að undirbúningi Hvalárvirkjunar sem nýta mun rennsli ánna Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár í Árneshreppi á Ströndum til orkuöflunar. Miðað við núverandi hönnun er gert ráð fyrir að afl virkjunarinnar verði 55 MW og orkuframleiðsla um 320 GWh á ári.
Hvalárvirkjun er vatnsaflsvirkjun í nýtingarflokki rammaáætlunar með áætlaða afkastagetu upp á 55 MW. Virkjunin er á jarðfræðilega köldu svæði og mun hún stuðla að auknu afhendingaröryggi raforku, jafnt á Vestfjörðum sem á landsvísu. Eitt af markmiðum VesturVerks er að virkjunin muni stuðla að auknu afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, sem er sá landshluti þar sem öryggi í afhendingu raforku er minnst og truflanir á raforkuafhendingu tíðastar. Hvalárvirkjun er staðsett á jarðfræðilega köldu svæði og í ljósi jarðhræringa á suðvesturhorni landsins mun hún einnig stuðla að auknu raforkuöryggi á landsvísu.
Virkjun Hvalár og tenging hennar við flutningskerfi Landsnets mun auðvelda hringtengingu flutningskerfis raforku um Vestfirði auk þess að auðvelda tengingu annarra smærri virkjana, sem fyrirhugaðar eru á svæðinu, við flutningskerfið. Hvalárvirkjun er vel miðluð, talsverðar vatnsbirgðir eru í stórum miðlunarlónum á Ófeigsfjarðarheiði og áætlað uppsett afl er tiltölulega mikið miðað við orkuframleiðslu. Virkjunin mun því bæta aðgengi að sveigjanlegu afli í landskerfinu og minnka líkur á aflskorti, sem samkvæmt spá Landsnets er líklegur í landskerfinu í náinni framtíð.
Önnur verkefni Vesturverks
VesturVerk hefur til skoðunar fleiri virkjunarkosti en Hvalá í Árneshreppi. Má þar helst nefna þróun Skúfnavatnavirkjunar (16 MW) og Hvanneyradalsvirkjunar (13,5 MW) við Ísafjarðardjúp. Báðir virkjunarkostir eru til umfjöllunar í rammaáætlun 4, áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða. Fyrirtækið horfir einnig til nýtingar vindorku og hefur nú þegar nokkra vindorkukostir til skoðunar á norðvesturhluta landsins.
Ítarlegri umfjöllun um alla vatnsorkukosti VesturVerks má nálgast á vefsíðu fyrirtækisins.
