-
66
MWe
Uppsett afl
-
573
GWh
Ársframleiðsla
-
190
MWth
Heitavatnsframleiðsla
-
26
Fjöldi háhitahola
-
30
km
Lengd háhitahola
Orkuverið í Svartsengi er fyrsta blandaða jarðvarmavirkjunin á Íslandi en þar er hvort tveggja framleidd raforka og heitt vatn. Jarðvarmavinnsla hófst árið 1976 og var orkuverið síðar byggt upp í sex áföngum á ríflega þremur áratugum. Framkvæmdir standa nú yfir við sjöunda áfangann sem felur bæði í sér aflaukningu og endurbætur á orkuverinu. Afkastageta orkuversins í Svartsengi er 66 MW í raforku og um 200 MW í varmaorku.
Svartsengi dregur nafn sitt af áningarstað hestamanna til forna en það er svæðið austan núverandi Grindavíkurvegar gegnt orkuverinu. Sjálft orkuverið stendur á hrauni sem rann árið 1226 og kallast Illahraun. Sunnan orkuversins er Þorbjarnarfell og austan við það er Svartsengisfell, Selháls er þar á milli og norðan hans Baðsvellir.
Boranir eftir gufu á Svartsengissvæðinu hófust um miðjan nóvember árið 1971 en í fyrsta áfanga voru boraðar þrjár holur og var sú dýpsta um 400 metrar. Þessar holur voru notaðar við heitavatnsframleiðslu í varmaskiptastöð sem var byggð árið 1976. Strax við virkjun þessara gufuhola fór skiljusjórinn að mynda affallslón sem lagði grunninn að Bláa lóninu. Vatni var hleypt á fyrstu húsin í Grindavík þann 6. nóvember 1976 og ári síðar náði hitaveitan til Njarðvíkur.
Heita vatnið á Suðurnesjum er upprunalega ferskvatn. Ferskvatnið er afloftað, afgösun er framkvæmd á vatninu og það hitað með háþrýstigufu í varmaskiptum. Þannig er því dælt frá HS Orku til neytenda á Reykjanesi.
Orkuverið í Svartsengi hefur verið byggt upp í sex áföngum.
- 1976 hófst vinnsla jarðvarma í Svartsengi. Raforkuframleiðsla hófst vorið 1978 þegar gangsettur var 1 MW hverfill til eigin nota í jarðvarmavinnslunni. Skömmu síðar var annar hverfill sömu stærðar tekinn í notkun.
- 1980 var lokið við annan áfanga þar sem 6 MW hverfli var bætt við og hann gangsettur í árslok.
- 1989 bættust þrír Ormat hverflar við sem framleiddu samtals 3,6 MW.
- 1993 var fjórum Ormat hverflum bætt við sem framleiddu samtals 4,8 MW.
- 1999 var 30 MW hverfill settur upp í orkuveri 5. Það tók samanlagt 21 ár að ná upp 45 MW rafmagnsframleiðslu í Svartsengi.
- 2008 var sjötti áfanginn í Svartsengi tekinn í gagnið en hann fól í sér 30 MW stækkun og gengur undir heitinu orkuver 6.
- 2023 hófust framkvæmdir við sjöunda áfanga orkuversins, orkuver 7, en verkefnið samanstendur af aflaukningu orkuversins um þriðjung ásamt verulegum endurbótum, sem einkum snúa að heitavatnsframleiðslu í verinu. Orkuver 7 mun leysa af hólmi orkuver 3 og 4. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér