Skilmálar fyrir áskrift að hleðslu hjá HS Orku
Áskrift að hleðslu hjá HS Orku er þjónusta sem samanstendur af (a) aðgangi að hleðslustöð fyrir raftengjanlegar bifreiðar, (b) kaupum á rafmagni og (c) þeirri þjónustu sem fylgir hleðslustöð.
Eftirfarandi skilmálar gilda fyrir sérbýli, fjölbýli og fyrirtæki sem nýta sér áskrift að hleðslu hjá HS Orku:
Undirbúningur fyrir uppsetningu að hleðslustöð
Viðskiptavinur skuldbindur sig til þess að vera í viðskiptum með kaup á rafmagni hjá HS Orku á meðan áskrift að hleðslu stendur. Ef viðskiptavinur ákveður að hætta í viðskiptum með kaup á raforku hjá HS Orku áskilur HS Orka sér rétt til þess að fjarlægja hleðslustöð enda er hleðslustöðin eign HS Orku.
Áður en hægt er að setja upp hleðslustöð hjá viðskiptavini þarf að ganga frá lögnum frá rafmagnstöflu viðskiptavinar að notkunarstað hleðslustöðvar. Þessi vinna er á ábyrgð viðskiptavinar og í hans eigu og skal unnin af löggiltum rafvirkja eða rafverktaka. Viðskiptavinur skal notast við löggiltan rafverktaka við uppsetningu hleðslustöðva. Allar tengingar að hleðslustöð eru í eigu og ábyrgð viðskiptavinar. Uppsetning stöðvar eftir að búið er að leggja lagnir að hleðslustöð getur verið í höndum þjónustuaðila HS Orku eða hún sett upp af löggiltum rafverktaka viðskiptavinar. Viðskiptavinur ber allan kostnað af uppsetningu hleðslustöðvar.
Notkun hleðslustöðvar
Viðskiptavinur í áskrift að hleðslu hjá HS Orku er rétthafi hleðslustöðvarinnar. Það felur í sér að hann ber ábyrgð á notkun hennar samkvæmt skilmálum þessum og jafnframt á greiðslum til HS Orku vegna notkunar. Innifalið í áskriftargjaldi er lögbundin ábyrgð, viðhald vegna eðlilegrar notkunar, ásamt samskiptakostnaði hleðslustöðvar við þjónustukerfi ef um er að ræða nettengda hleðslustöð. Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir allri notkun á hleðslustöð og skal fara vel með allan þann búnað sem hann hefur til afnota. Viðskiptavinur skal tilkynna HS Orku, án tafar, ef þörf er á viðgerð eða viðhaldi á hleðslustöð. Einungis HS Orku eða þjónustuaðilum á vegum HS Orku er heimilt að sinna viðgerð og viðhaldi á hleðslustöð. Stafi viðgerð eða viðhald af rangri eða slæmri meðferð viðskiptavinar þá er HS Orku heimilt að innheimta viðskiptavin um kostnað vegna slíkrar viðgerðar.
Við lok hleðsluáskriftar skal viðskiptavinur skila hleðslustöð á skrifstofur HS Orku. Hvers konar útlitslegar skemmdir og/eða lýti sem kunna að verða á eignum viðskiptavinar sem koma í ljós þegar hleðslustöð er fjarlægð eða skipt út eru ekki, undir neinum kringumstæðum, á ábyrgð HS Orku.
HS Orka tekur á móti bilunarboðum frá hleðslustöð í gegnum fjartengingu og tilkynnir viðskiptavini ef bilun á sér stað, verði vart við það. HS Orka skuldbindur sig til að sinna viðgerðum innan tveggja virkra daga ásamt því að bjóða uppá neyðarþjónustu ef hættuleg tilfelli myndast utan hefðbundins opnunartíma þjónustusala. Greiðsla kostnaðar fyrir neyðarþjónustu fer eftir eðli bilunar, hvort um er að ræða ábyrgðarmál eða afleiðingu af gjörðum viðskiptavinar, svo sem vegna slæmrar meðferðar á búnaði.
HS Orka áskilur sér rétt til að tengjast hleðslustöð viðskiptavinar með fjartengingu án samráðs við viðskiptavin í þeim tilgangi að stilla hana af, endurræsa, uppfæra og bilanagreina. Viðskiptavinur skuldbindur sig til að veita HS Orku eða þjónustuaðilum á vegum HS Orku aðgang að leigðri hleðslustöð ef eftir því er óskað.
Ábyrgð
Viðskiptavinur er bótaskyldur ef búnaður skemmist eða glatast, ef rekja má það til ásetnings eða gáleysis viðskiptavinar eða aðila á hans ábyrgð.
Öll misnotkun á hleðslustöðinni eða áskriftinni sjálfri er óheimil. HS Orka getur lokað á notkun fyrirvaralaust ef viðskiptavinur verður vís að einhver konar misnotkun t.d. á þann máta að notkun fari í bága við lög eða hafi áhrif á notkun annarra viðskiptavina.
HS Orka ber ekki ábyrgð á tjóni sem er hægt að rekja til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptakerfis HS Orku eða á vegum þjónustuaðila fyrirtækisins. Þetta á við hvort sem slíkt tjón megi rekja til ljósleiðarabilana, bilana í netbúnaði eða annarra aðstæðna, nema að slíkt verði rakið til ásetnings eða gáleysis af hálfu starfsfólks HS Orku. Viðskiptavinur getur krafist niðurfellingar á áskriftargjaldi ef hann er án þjónustu vegna bilunar í lengri tíma en þrjá daga, en niðurfelling miðast við þann tíma sem þjónusturof varir. HS Orka mun ávallt leitast við að koma þjónustu á að nýju svo fljótt sem auðið er.
Greiðsluskylda
Viðskiptavinur skuldbindur sig til þess að greiða mánaðarlegar áskriftargreiðslur fyrir notkun á hleðslustöð og er gjald miðað við fyrsta dag næsta mánaðar. Mánaðargjaldið tekur mið af fjölda daga í hverjum mánuði fyrir sig og verð er samkvæmt verðskrá hverju sinni. Hægt er að finna gildandi verðskrá fyrir áskrift að hleðslu á heimasíðu HS Orku, www.hsorka.is. Allar breytingar á verðskrá HS Orku eru kynntar viðskiptavinum með 30 daga fyrirvara á heimasíðu fyrirtækisins.
Ef HS Orka er skráð fyrir raforkumæli á notkunarstað er ekki leyfilegt að tengja annan búnað inná þann mæli nema með skriflegu leyfi HS Orku. Sú umframnotkun verður þá rukkuð sérstaklega.
Greiðsluskylda vegna áskriftar að hleðslu er sem hér segir:
Sérbýli – Viðskiptavinur greiðir fyrir notkun skv. mælingu mælitækis dreifiveitu ásamt annarri notkun, dreifingu, flutningi og jöfnunargjaldi samkvæmt samningi við raforkusala og dreifiveitu.
Fjölbýli – Viðskiptavinur greiðir fyrir notkun skv. mælingu mælitækis dreifiveitu ásamt annarri notkun, dreifingu, flutningi og jöfnunargjaldi samkvæmt samningi við raforkusala og dreifiveitu. Ef um aðgangsstýringu á hleðslustöð er að ræða skuldbindur viðskiptavinur sig til að greiða fyrir notkun, í samræmi við gildandi verðskrá HS Orku fyrir rafhleðslur á hverjum tíma. Notkun er sú orka (kWh) sem viðeigandi hleðslustöð mælir. Viðskiptavinur greiðir jafnframt mánaðarlegt þjónustugjald samkvæmt verðskrá HS Orku.
Fyrirtæki - Viðskiptavinur greiðir fyrir notkun skv. mælingu mælitækis dreifiveitu ásamt annarri notkun, dreifingu, flutningi og jöfnunargjaldi samkvæmt samningi við raforkusala og dreifiveitu. Ef um aðgangsstýringu á hleðslustöð er að ræða skuldbindur viðskiptavinur sig til að greiða fyrir notkun, í samræmi við gildandi verðskrá HS Orku fyrir rafhleðslur á hverjum tíma. Notkun er sú orka (kWh) sem viðeigandi hleðslustöð mælir. Viðskiptavinur greiðir jafnframt þjónustugjald samkvæmt verðskrá HS Orku hverju sinni.
Viðskiptavinur skal greiða mánaðargjald skv. reikningi frá HS Orku. Gjalddagi er á útgáfudegi reiknings og eindagi 23. dag sama mánaðar.
Dráttarvextir reiknast við kröfu sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ef reikningur er ekki greiddur á gjalddaga. HS Orka innheimtir seðilgjald eða tilkynningar- og greiðslugjald vegna birtingar reikninga og er gjaldið breytilegt eftir því hvort um er að ræða greiðsluseðla á pappír, greiðslukort eða greiðsla reikninga í netbanka. Auk dráttarvaxta innheimtir HS Orka allan innheimtukostnað samkvæmt gildandi reglum.
HS Orku er heimilt að loka áskrift viðskiptavinar að hleðslu og rifta þar með samningi um áskrift að hleðslu hafi skuld ekki verið greidd innan 30 daga frá gjalddaga. Í kjölfarið er HS Orku heimilt að fjarlægja hleðslubúnað í eigu HS Orku á kostnað viðskiptavinar. Ef lokað er vegna vanskila ber HS Orka enga ábyrgð á hugsanlegri röskun, óþægindum eða tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna þessa.
Athugasemdir við reikninga skulu berast eins fljótt og auðið er og eigi síðar en á gjalddaga. Að öðrum kosti telst reikningurinn samþykktur.
Uppsögn
Viðskiptavini er heimilt að segja samningnum upp með eins mánaðar fyrirvara. Uppsögn miðast við þann dag sem viðskiptavinur skilar hleðslustöð á skrifstofur HS Orku og tekur uppsögnin gildi fyrsta dag næsta mánaðar þar á eftir. HS Orku er heimilt að segja upp samningi um áskrift að hleðslu með eins mánaðar fyrirvara og tekur uppsögnin gildi fyrsta dag næsta mánaðar þar á eftir.
Í þeim tilvikum þar sem nýr aðili skal taka yfir leigunni á sama heimilisfangi miðast uppsögn viðskiptavinar við þann dag sem nýr aðili samþykkir skilmála þessa og tekur flutningur gildi fyrsta dag næsta mánaðar þar á eftir.
Uppsögn viðskiptavinar á samningi um áskrift að hleðslu HS Orku þarf að berast til HS Orku og skal hún vera skrifleg, s.s. með tölvupósti á hsorka@hsorka.is.
Önnur ákvæði
Til þess að uppfylla skyldu skv. skilmálum og lögum þarf HS Orka að vinna með persónuupplýsingar um viðskiptavin. Um vinnslu persónuupplýsinga fer skv. lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og persónuverndarstefnu HS Orku sem aðgengileg er á heimasíðu fyrirtækisins.
Komi upp ágreiningur milli HS Orku og viðskiptavinar þá skulu báðir aðilar leitast við að leysa hann með samkomulagi. Verði sáttum ekki komið að skulu ágreiningsmál rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
HS Orka áskilur sér einhliða rétt til þess að breyta skilmálum þessum með 30 daga fyrirvara. Breytingarnar taka gildi 30 dögum frá birtingu þeirra á heimasíðu HS Orku, www.hsorka.is.