HS Orka er stolt af því að hafa nú á haustmánuðum hlotið tvær viðurkenningar veittar fyrirtækjum sem skara fram úr í rekstri hér á landi og uppfylla ýmis viðmið sem einkenna vel rekin fyrirtæki.
Fyrri viðurkenninguna, Framúrskarandi fyrirtæki í rekstri, veita Viðskiptablaðið og Keldan þeim fyrirtækjum sem sýna m.a. jákvæða afkomu, eru með tekjur umfram 45 milljónir króna og eignir umfram 80 milljónir króna auk þess sem eiginfjárhlutfall þarf að hafa verið umfram 20%.
Seinni viðurkenningin, Framúrskarandi fyrirtæki, er veitt af Creditinfo en vottunina hljóta fyrirtæki sem uppfylla skilyrði um góðan rekstur og stuðla að bættu viðskiptaumhverfi. Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra í samfélaginu.