Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Vel heppnað viðhald í Brúarvirkjun

Umfang virkjunarinnar er tiltölulega lítið og staðsetningin heppileg með tilliti til sjónrænna áhrifa. Með tilkomu hennar jókst afhendingaröryggi raforku í Bláskógabyggð sem og í nágrannabyggðum.

0405C8344b17cd20c2908c3f0d9b43108c7fc957

Brúarvirkjun er komin í fullan rekstur á ný eftir þriggja daga framleiðslustöðvun í byrjun júlí sem var nauðsynleg vegna ástandsmælinga og viðhaldsvinnu RARIK á 11kV háspennustreng frá Brúarvirkjun í Reykholt. HS Orka nýtti tækifærið í stöðvuninni til að ráðast í ýmis reglubundin viðhaldsverkefni á virkjuninni. Vel tókst til hjá báðum fyrirtækjum en miklu skiptir að gott samstarf sé á milli aðila í verkefnum sem þessum.

Báðar túrbínurnar stöðvaðar samtímis

Að sögn Steinars Ísfeld Ómarssonar, viðhaldsstjóra HS Orku, staðfestu allar mælingar RARIK á háspennustrengnum að strengurinn er við mjög góða „heilsu“. Samhliða ástandsmælingunum hafi RARIK einnig ráðist í að krossbinda skermun kapla á tveimur stöðum sem gert er til að minnka svokallaða skermstrauma frá strengnum.

Steinar segir starfsmenn rekstrarsviðs HS Orku hafa nýtt tímann í stöðvuninni vel. Farið var í reglubundið viðhald á báðum túrbínum virkjunarinnar samtímis ásamt því að framkvæma skoðun á inntaksmannvirkinu. Að sögn Steinars er venjan sú að taka aðeins eina túrbínu fyrir í einu í svona viðhaldi. Heilt yfir hafi verkefnið gengið mjög vel og engar stórvægilegar uppákomur orðið.

Í mörg horn að líta

Meðal þess sem gert var í stöðvuninni var að ástandsskoða rafala, túrbínur og vatnsveg ásamt því að einangrunarmæla rafala og rétta af smurolíudælur í þeim. Niðurföll fyrir vatn, sem þéttist utan á túrbínum, voru löguð og þjónustulokar á túrbínunum málaðir. Gengið var frá lausum endum í hússtjórnarkerfi virkjunarinnar sem auðveldar allt eftirlit úr Svartsengi með stoðkerfi virkjunarinnar, s.s. loftræsingu. Tengt var fyrir ljós- og vinnurafmagn í hleðslubanka (load bank) utan við stöðvarhús, en það er búnaður sem nýtist þegar virkjunin er keyrð í eyjakeyrslu. Einnig voru nokkrar lagfæringar gerðar á vöktunarmyndavélum í stíflumannvirki og stöðvarhúsi. Að endingu voru gerðar prófanir á botnrásarloku stífumannvirkisins og komu þær prófanir vel út.

Virkjun sem fellur vel að umhverfi sínu

Brúarvirkjun er 9,9MW rennslisvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum í þeim hluta árinnar sem rennur milli jarðanna Haukadals II og Brúar, ofan við þjóðveginn að Gullfossi. Virkjunin var gangsett snemma árs 2020 og hefur nú verið starfrækt í ríflega þrjú ár. Umfang virkjunarinnar er tiltölulega lítið og staðsetningin heppileg með tilliti til sjónrænna áhrifa. Með tilkomu hennar jókst afhendingaröryggi raforku í Bláskógabyggð sem og í nágrannabyggðum. Fyrir áhugasama er hér vandað myndband sem sýnir vel hvernig verkefnið þróaðist á framkvæmdatíma og hve vel virkjunin fellur að umhverfi sínu.