Eldgosið í Sundhnúksgígum er stöðugt og hraun rennur meðfram varnargörðum sem liggja umhverfis Svartsengi og Bláa Lónið. Neyðarstjórnir HS Veitna og HS Orku eru að störfum og fylgjast náið með þróun mála í samstarfi við Almannavarnir ríkislögreglustjóra.
Eins og við er að búast við þessar aðstæður hækkar hraungarðurinn og hefur hann nú náð hæð varnargarðanna á köflum. Almannavarnir hafa því virkjað næsta skref í vörnum sem felst í hækkun varnargarða og undirbúningi hraunkælingar við þá og er kælingin nú til reiðu.
Njarðvíkuræðin innan garða varin
Auk þess er unnið að því að byrgja þann hluta Njarðvíkuræðar sem liggur innan varnargarða með sama hætti og lögnin er varin fyrir utan varnargarða. Þær varnir hafa haldið eftir að hraun flæddi yfir lagnaleiðina sl fimmtudag utan garða. Vel er fylgst með ástandi lagnarinnar og allar mælingar benda til þess að hraunflæði hafi enn sem komið er ekki haft áhrif og afhendingargetan því óskert.
Eldgosið hefur því ekki haft teljandi áhrif á afhendingu á heitu vatni, köldu vatni eða rafmagni til sveitarfélaganna á Suðurnesjum og standa vonir til að svo verði áfram.
Heitavatnsnotkun aldrei verið meiri
Í náttúruhamförum sem ógna innviðum er þó nauðsynlegt að vera við öllu búin. HS Veitur og HS Orka biðla því til viðskiptavina á Suðurnesjum að vera undir það búnir að eldgosið gæti haft áhrif á afhendingu á heitu vatni. Minnt er á ábendingar HS Veitna í náttúruhamförum sem eru aðgengilegar hér.
Heitavatnsnotkun á Suðurnesjum hefur aldrei verið jafn mikil á þessum árstíma og hún er nú, meðal annars vegna þess hvað byggðin hefur stækkað. Við þær aðstæður sem nú eru í Svartsengi er heitavatnsframleiðslan undir miklu álagi. Eru notendur hvattir til að fara sparlega með heita vatnið og gæta þess að halda varma inn í húsum með því að hafa glugga lokaða. Það mun auk þess koma sér vel ef aðstæður breytast og heitt vatn hættir að berast frá Svartsengi.