Út er komin sjálfbærniskýrsla HS Orku fyrir árið 2023. Í skýrslunni er að finna greinargott yfirlit yfir starfsemina þar sem ljósi er varpað á fjölbreytt verkefni fyrirtækisins og áhrif þess á umhverfi, samfélag og efnahag. Skýrslan er unnin í samræmi við alþjóðlega staðla og stigið er stórt skref varðandi staðfestingu ytri aðila (KPMG ehf.) á efni skýrslunnar.
Að gefnu tilefni er í skýrslunni sérstakt yfirlit yfir viðbragð og varnir HS Orku vegna aðsteðjandi náttúruvár og farið yfir samstarf við hag- og viðbragsaðila í þeim efnum. Jafnframt er ljósi varpað á verkefni á sviði auðlindastýringar, öryggis- og mannauðsmála, og grein gerð fyrir stöðu fyrirtækisins gagnvart flokkunarreglugerð Evrópusambandsins, svo eitthvað sé nefnt.