Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Samið við Ístak um stækkun í Svartsengi

HS Orka og Ístak hafa undirritað samning um byggingu mannvirkja í tengslum við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi.

SVASJO

HS Orka og Ístak hafa undirritað samning um byggingu mannvirkja í tengslum við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi. Fyrsta uppsteypan fór fram í síðustu viku þegar byrjað var að steypa grunn að nýju stöðvarhúsi. Ístak mun jafnframt sinna samræmingu og öryggismálum á verkstað. Að framkvæmdum loknum er áætlað að framleiðslugeta Svartsengis aukist um tæplega þriðjung.

Í framkvæmdinni, sem gengur undir nafninu SVA7, felst að eldri framleiðslueiningar verða teknar út og ný framleiðslueining sett í staðinn, sem mun bæta nýtingu auðlindarinnar og auka framleiðslugetu versins upp í 85 MW. Í dag telst uppsett afl í Svartsengi um 66 MW. Samningurinn hljóðar upp á 2,6 milljarða króna en kostnaðaráætlunin í heild nemur um 12 milljörðum. Verkefnið allt er svipað að stærð og stækkun Reykjanesvirkjunar, sem tekin var í notkun í upphafi árs. Ætla má að um 100 manns komi að verkinu þegar mest verður.

Sunna Björg Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs, segir verkefninu miða vel. „Fyrsta skóflustungan fyrir SVA7 var tekin í desember á síðasta ári og var þegar hafist handa við jarðvegsframkvæmdir. Þeim lauk á vormánuðum og samhliða hefur verkefnisstjórn unnið að innkaupum á búnaði með langan afhendingatíma svo sem rafali, kæliturni, eimsvala, spennum og gassogskerfi. Steypuvinnan við nýtt stöðvarhús hófst svo nú um miðjan september.“

Birgir Þór Birgisson, yfirverkefnisstjóri SVA7, segir að almennt hafi gengið vel að ganga frá samningum.  „Afhendingartími á mikilvægum búnaði er langur eins og viðbúið er. Enn er ósamið um nokkra þætti verkefnisins en stefnt er að því að öllum samningum verði lokið á næstu mánuðum.“

Áherslur í orkumálum eru almennt að breytast á þann veg að allt kapp er lagt á að nýta betur afl frá þeim auðlindum sem þegar hafa verið virkjaðar. Stækkun Reykjanesvirkjunar og framkvæmdirnar í Svartsengi eru dæmi um þá vegferð sem HS Orka er á og miðar að því að nýta sem best auðlindirnar sem fyrirtækið ber ábyrgð á með sjálfbærni að leiðarljósi.