Markmiðið er að auka afhendingaröryggi á heitu vatni í Hafnarfirði og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að mæta vaxandi raforkuþörf í landinu. Samhliða verður unnið að hugmyndum um auðlindagarð með áherslu á útivist, vistvæna ferðaþjónustu og græna atvinnustarfsemi.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti samninginn samhljóða á fundi sínum í gær.
Framtíðaruppbygging hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu
Hafnarfjarðarbær og HS Orka hafa undirritað samning um heimild til rannsókna, landnota, lóðarleigu og nýtingu auðlindaréttinda í tengslum við mögulega nýtingu auðlinda í Krýsuvík. Markmið samningsins er að kanna möguleika þess að virkja jarðvarma og vinna grunnvatn í landi Krýsuvíkur á hagkvæman og umhverfisvænan hátt samhliða uppbyggingu auðlindagarðs þar sem frekari nýting vinnslustrauma fer fram. Stefnt er að því að jarðvarmaver rýsi á Sveifluhálsi á Krýsuvíkursvæðinu.
Samningurinn veitir annars vegar heimild til rannsókna á grunnvatnsauðlind, jarðvarma og hagkvæmni vatns- og orkuvinnslu í landi Krýsuvíkur. Hins vegar veitir samningurinn heimild til nýtingar auðlinda eins og nýtingarleyfi og hagkvæmni gefa tilefni til. Samningurinn, sem byggir á viljayfirlýsingu frá nóvember 2022, var samþykktur af bæjarstjórn Hafnarfjarðar í gær, 5. júní.
Hafnarfjarðarbær er eigandi Krýsuvíkur sem er verðmætt útivistarsvæði og vinsæll áfangastaður ferðafólks. Krýsuvík býr auk þess yfir einum vænlegasta kosti sem býðst til framtíðaruppbyggingar hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu. Með auðlindanýtingu í Krýsuvík mætti bæta afhendingaröryggi á heitu vatni til höfuðborgarsvæðisins til muna, en höfuðborgarsvæðið fær nú allt heitt vatn frá svæðum sem eru staðsett austur af svæðinu, það er frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir það mikilvæg tímamót fyrir Hafnarfjörð að samið hafi verið um framtíðaruppbyggingu í Krýsuvík. „Krýsuvíkursvæðið er einstök gersemi í eigu Hafnarfjarðar sem felur í sér mikil og ónýtt tækifæri til að nýta og njóta. Þessi rannsóknar- og nýtingarsamningur á sér mjög langan aðdraganda. Markmiðið með honum er að tryggja Hafnfirðingum og fleirum aðgang að heitu vatni og orku til framtíðar. Samhliða verður svæðið svo gert aðgengilegra til útivistar og nátturuskoðunar.“
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir samninginn við Hafnarfjarðarbæ mikið fagnaðarefni. „Hann leggur grunninn að áframhaldandi jarðhitarannsóknum á Krýsuvíkursvæðinu. Við erum vongóð um að rannsóknirnar leiði til þess að jarðhitinn geti nýst jafnt til framleiðslu á heitu vatni fyrir Hafnfirðinga og nágranna sem og til framleiðslu á raforku. Samhliða hugsanlegri orkuvinnslu munu skapast spennandi tækifæri til uppbyggingar á margskonar grænni atvinnustarfsemi í Krýsuvík.“
Fyrirmynd í samspili orkuvinnslu, ferðaþjónustu og náttúru
Áætlað er að nýtt jarðvarmaver í Krýsuvík gæti hitað upp allt að 50.000 manna byggð auk aflgetu til raforkuframleiðslu, allt að 100 MW. Þá er stefnt að því að vinna að hugmyndum um auðlindagarð í Krýsuvík með áherslu á uppbyggingu vistvænnar ferðaþjónustu sem fellur vel að umhverfi og náttúru, aðstöðu til útivistar auk grænar atvinnustarfsemi, svo sem þörungaræktunar, náttúrulegrar efnavinnslu og ræktunar í gróðurhúsum. Lögð verður áhersla á að efnisnotkun, áferð og litir mannvirkja á svæðinu falli vel að umhverfinu og að sérstaða svæðisins haldist og fái að njóta sín. Samtals er lóðaleigusvæðið um 200.000 fermetrar og athafnasvæði jarðhitasvæðis um tveir ferkílómetrar.
Ávinningur samningsins er því fjórþættur: Aukið orku- og heitavatnsöryggi fyrir höfuðborgarsvæðið og sérstaklega Hafnarfjörð. Uppbygging innviða sem skapar aðdráttarafl fyrir þjónustuaðila og gesti svæðisins. Fjölbreytt tækifæri til uppbyggingar á atvinnustarfsemi í anda hringrásarhagkerfisins sem getur orðið fyrirmynd í samspili orkuvinnslu, ferðaþjónustu og náttúru.
HS Orka hf. á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi og hefur í hálfa öld byggt upp þekkingu og reynslu sviði fjölnýtingar auðlindastrauma frá virkjunum. Í Auðlindagarði HS Orku eru straumarnir nýttir til grænna orkulausna, ræktunar, eldis og matvælaiðnaðar auk ferðaþjónustu. HS Orka framleiðir raforku inn á meginflutningskerfi landsins ásamt því að sjá samfélaginu á Suðurnesjum fyrir ferskvatni og heitu vatni.
Kynningarfundur um áformin verður haldinn kl. 17, 12. júní í Bæjarbíói.