Öllum yfirborðsrannsóknum er lokið og nú taka við rannsóknir með djúpborun.
Krýsuvíkursvæðið hefur hingað til verið metið hátt sem jarðhitasvæði til nýtingar fyrir orkuvinnslu. Vonir standa til þess að framleiða þar heitt vatn fyrir Hafnarfjörð og höfuðborgarsvæðið og rafmagn inn á landskerfið. Fyrirtækið Jarðboranir sér um verklega hluta borunarinnar og nýtir til þess borinn Óðin. Borinn er knúinn rafmagni þannig að boruninni fylgir ekki olíunotkun til að knýja aflvélar hans að undanskildum fyrstu vikunum, þar til ný spennistöð er komin í gagnið.
Aukin þekking á jarðhitakerfinu
Áætlað er að stefnubora allt að 2.750 metra langa holu niður á ríflega tveggja kílómetra dýpi undir Sveifluhálsinn til norðvesturs. Markmiðið er að auka þekkingu á jarðhitakerfinu,sannreyna tilvist háhitaauðlindar og meta nýtingu hennar á svæðinu Sveifluháls – Austurengjar. Þar er gert ráð fyrir fleiri djúpum rannsóknarholum til viðbótar og er undirbúningur þegar hafinn að gerð næsta borteigs með skipulagsvinnu og mati á umhverfisáhrifum.
Væntingar um hitaveitu fyrir höfuðborgarsvæðið
Hafnarfjarðarbær er eigandi þess hluta Krýsuvíkursvæðisins sem rannsóknirnar fara fram á. Krýsuvík er vinsælt útivistarsvæði og eftirsóttur áfangastaður ferðafólks en einnig geymir svæðið merka atvinnusögu. Með auðlindanýtingu í Krýsuvík standa vonir til þess að bæta afhendingaröryggi á heitu vatni til höfuðborgarsvæðisins, en í dag kemur bróðurparturinn af heitu vatni þangað frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun á Hengilsvæðinu.
Samkomulag við Hafnarfjarðarbæ
Í júní á síðasta ári undirrituðu Hafnarfjarðarbær og HS Orka samning um heimild til rannsókna, landnota, lóðarleigu og nýtingar auðlindaréttinda í tengslum við mögulega nýtingu auðlinda í Krýsuvík. Samningurinn miðar að því að kannamöguleika þess að virkja jarðvarma og vinna grunnvatn í landi Krýsuvíkur á hagkvæman og umhverfisvænan hátt, samhliða uppbyggingu auðlindagarðs þar sem frekari nýting vinnslustrauma getur farið fram.
Árið 1998 var félagið Jarðlind ehf. stofnað um samstarf vegnaundirbúnings jarðhitavinnslu á Krýsuvíkursvæðinu og voru Hitaveita Suðurnesja, forveri HS Orku, og Hafnarfjarðarbær meðal eigenda. Jarðlind var síðar sameinuð Hitaveitu Suðurnesja. Tvær háhitaholur voru á sínum tíma boraðar í Trölladyngju en þær gáfu ekki tilefni til virkjunar. Árið 2006 gerðu HS Orka og Hafnarfjarðarbær með sér samkomulag um nýtingu jarðhita í Krýsuvík og lagði það grunninn að þeim samningi sem nú er unnið eftir.
Framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknarboruninni, sem nú er að hefjast, var veitt í ársbyrjun 2024 en samningurinn sjálfur, sem byggist á viljayfirlýsingu frá nóvember 2022, var samþykktur af bæjarstjórn Hafnarfjarðar 5. júní í fyrra.
Spennandi samspil orkuvinnslu, ferðaþjónustu og náttúru
Ætla má að nýtt orkuver á Sveifluhálssvæðinu geti hitað upp allt að 50.000 manna byggð auk þess að hafa 100 MW rafmagnsaflgetu. Samningurinn við Hafnarfjarðarbæ kveður á um að aðilar vinni saman að annarri uppbyggingu sem nýtir auðlindastrauma frá virkjuninni, svipað og gert er undir heiti Auðlindagarðsins við orkuver HS Orku í Svartsengi og Reykjanesvirkjun. Áhersla verður á uppbyggingu vistvænnar ferðaþjónustu, sem fellur vel að umhverfi og náttúru, ásamtaðstöðu til útivistar auk grænnar atvinnustarfsemi á borð við þörungaræktun, náttúrulega efnavinnslu, ræktun í gróðurhúsumog fleira.
Mannvirki falli vel að náttúru og staðháttum
Vanda þarf til verka við hönnun og útlit mannvirkja þegar og ef til uppbyggingar kemur, þannig að þau falli vel að náttúru og sérkennum svæðisins og verði ásættanlegur hluti þess.
Ef rannsóknirnar í Krýsuvík skila jákvæðum niðurstöðum má segja að ávinningurinn verði þríþættur:
Rannsóknir í Krýsuvík í ríflega 80 ár
Hugmyndir um jarðhitanýtingu í Krýsuvík eru ekki nýjar af nálinni. Þannig hafa Hafnfirðingar, sem landeigendur við Sveifluháls og Austurengjar, gefið svæðinu gaum í áratugi - bæði til raforkuvinnslu og til hitaveitu sem þjónað gæti nærliggandi þéttbýli.
Umtalsverðar rannsóknir voru áður á Krýsuvíkursvæðinu og ná þær fyrstu allt aftur til ársins 1941. Alls hafa 34 holur verið boraðar á svæðinu, bæði jarðhita- og kaldavatnsholur. Voru flestar þeirra boraðar á vegum Rafveitu Hafnarfjarðar en einnig af ríkinu og Orkustofnun auk HS Orku.
Leyfismál og tímalína
Ef rannsóknir skila tilætluðum árangri er stefnt að því að jarðvarmaver rísi við Sveifluháls. Ekki er tímabært að segjanákvæmlega til um hvar hin ýmsu mannvirkijarðvarmavinnslunnar verða staðsett. Niðurstöðurnar úr rannsóknarborununum ráða þar miklu en einnig umhverfismat framkvæmda og allt samspil við náttúru Krýsuvíkur og aðra atvinnustarfsemi á svæðinu.
Umhverfismat fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir í Krýsuvík er í undirbúningi en tímalína verkefnisins í heild spannar hátt í áratug.
Varmavinnsla í Krýsuvík í þágu þjóðaröryggis
Í kjölfar fárviðris, sem geysaði á landinu í desember 2019, vann átakshópur stjórnvalda að aðgerðalýsingu þar sem Krýsuvík varskilgreind sem sérstaklega mikilvægt svæði vegna öryggis hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Einn liður í áætlun stjórnvalda til að tryggja orkuöryggi til framtíðar kveður á um að gera „könnun á sameiginlegri varmastöð í Krýsuvík fyrir Suðurnes og höfuðborgarsvæðið, undir formerkjum almannahagsmuna, þjóðaröryggis og forgangs varmavinnslu í þágu hitaveitu“. HS Orka vinnur með þessi tilmæli að leiðarljósi.

