Ný vefsíða HS Orku hefur litið dagsins ljós en vinna við nýjan vef hófst snemma á þessu ári í samstarfi við Vefstofuna Vettvang. Vefsíðan var endurhönnuð frá grunni og hannaði Vettvangur meðal annars nýtt veftré sem einfaldar allt aðgengi að efni á vefnum, bætir flæði og hámarkar upplifun notenda. Einnig styður vefurinn ýmsar nýjar áherslur í markaðs- og sölustarfi HS Orku sem gamli vefurinn gerði ekki og má þar nefna stafræna þjónustu á borð við netspjall.
Snjalltækjavænn vefur
Horft var til þess að hanna nýtt útlit á stafrænni framsetningu vörumerkis HS Orku þar sem kvik hönnun líkir eftir pípulögnum fyrirtækisins og gefur vefnum létt og frísklegt yfirbragð. Vefsíðan var endurgerð með það að markmiði að hækka þjónustustig fyrirtækisins og einfalda samskipti viðskiptavina við fyrirtækið. Nýi vefurinn er jafnframt snjalltækjavænni en sá gamli og mætir þannig betur kröfum viðskiptavina um gott aðgengi að upplýsingum hvar sem er og hvenær sem er.
Vefur Auðlindagarðsins einnig endurhannaður
Á sama tíma fékk síða Auðlindagarðs HS Orku nýtt útlit og mun sá vefur gefa mun meiri möguleika til framþróunar. Nýi vefurinn gerir Auðlindagarðinum kleift að auka verulega við upplýsingagjöf og sýna betur hver þróun Auðlindagarðsins er hugsuð til framtíðar. Líkt og vefur HS Orku er vefur Auðlindagarðsins bæði upplýsandi og kvikur og endurspeglar vel það metnaðarfulla, faglega og framsýna starf sem unnið er á vettvangi Auðlindagarðsins.