Önnur vinna, ekki síður mikilvæg, fór fram á vegum auðlindastýringar HS Orku þar sem sérfræðingar unnu m.a. á vöktum við nauðsynlegar greiningar á svarfi úr holunum. Tíminn á enn eftir að leiða í ljós hverju boranirnar skila til framtíðar en mælingar gefa ástæðu til bjartsýni.
Sérfræðingarnir eru innanhúss
Auðlindateymið hefur verið önnum kafið við borholurannsóknirnar allt frá því að borun fyrri holunnar, RN-38, hófst snemma í nóvember. Borun hennar lauk um miðjan janúar á um 2.700 metra dýpi og gekk verkið almennt vel. Jarðfræðingar teymisins hafa skipt með sér vöktum og var jarðfræðingur til staðar alla virka daga sem borað var til að hreinsa og greina svarfið úr holunum. Við svarfgreiningarnar fundust epidote og actinolite-steindir í berginu en þær gefa til kynna að hitinn þar hafi á einhverjum tímapunkti náð 280°C. Hitamælingar staðfestu svo í lok borunar að hár hiti er enn til staðar á þessu svæði.
Þegar borun RN-38 lauk var strax hafist handa við borun seinni holunnar, RN-39, en sá borteigur er skammt frá þeim fyrri, ekki langt frá Reykjanesvita. Þessari síðari borun lauk í síðustu viku maímánaðar á 2.602 metra dýpi.
Í framhaldi af báðum borununum var farið í mælingar á holunum og þær örvaðar. Sérfræðingar auðlindastýringarinnar setja fram áætlun um mælingar sem gefa upplýsingar um hita, þrýsting og lekt holunnar. Út frá þeim upplýsingum er örvunaráætlun hönnuð sem stuðlar að því að auka lektina í holunni og fá þannig sem mest út úr henni.
Óvenjulegt er að svarfgreiningarvinnan, ásamt mælingum og örvunaraðferðum, sé unnin á vegum orkufyrirtækjanna sjálfra. Algengara er að þær rannsóknir séu aðkeyptar af utankomandi aðilum. Með þessu móti skapast ómetanleg þekking innan fyrirtækisins sem nýtist við frekari vöktun og rannsóknir á auðlindinni.
Greiningar á svarfi nýtast ef borað verður á ný
Svarfgreiningar við borun fela í sér skoðun á svarfi sem kemur upp til yfirborðs með borvökva. Svarfgreiningarnar geta gefið mikilvægar upplýsingar um jarðlögin sem borað er í gegnum. Svarfsýnin frá borunum vetrarins hafa flest þegar verið greind innanhúss af jarðfræðingum en sýnin eru þrifin og síðan greind með smásjá til þess að skilgreina eiginleika bergsins sem borað var í gegnum.
Þessar greiningar hjálpa til við borunaraðgerðir, til að mynda þegar verið er að áætla fóðringadýpt og til að auka skilning á jarðfræðilegu umhverfi borananna. Borun á RN-38 og RN-39 voru dæmigerðar rannsóknaboranir þar sem borað var inn á áður óþekkt svæði. Greiningar á jarðlögum frá þessum borholum munu því nýtast ef borað verður aftur inn á sömu svæði.
Næsta skref í ferlinu er að leyfa borholu RN-39 að hitna því í boruninni er köldum vökva dælt niður í holuna sem kælir hana tímabundið. Fyrstu mælingar benda þó til þess að lekt og góður hiti sé til staðar og gefur það væntingar um að hún muni geta nýst til framtíðar.
Nýting auðlindarinnar byggð á okkar eigin sérfræðiþekkingu
Boranir á jarðhitasvæðum eru alltaf háðar verulegri óvissu því jarðlögin geta verið ófyrirsjáanleg auk þess sem kostnaðurinn við boranir er mikill. Ætla má að hver rannsóknarborun kosti í kringum einn milljarða króna og því er mikilvægt að ítarlegastar upplýsingar liggi fyrir um jarðlögin og eðli auðlindarinnar áður en ákvörðun er tekin um borun. Að byggja upp slíka þekkingu innanhúss gerir fyrirtækinu enn betur kleift að stýra nýtingu auðlindarinnar með sjálfbærni að leiðarljósi og tryggja að ekki sé gengið um of á orkuforðann.