Rekstur orkuvera HS Orku á Reykjanesi hefur gengið tíðindalaust fyrir sig síðasta sólarhringinn og þótt eldgosið við Sundhnúksgíga sé stöðugt virðist það ekki ætla að hafa frekari áhrif á innviði í bráð.
Vel gengur að sinna heitavatnsframleiðslu í Svartsengi en raforkuframleiðsla liggur niðri á meðan ekki tekst að koma Svartsengislínu Landsnets í gagnið á ný eftir skemmdir gærdagsins af völdum hraunflæðisins. Raforka til eigin nota í Svartsengi kemur frá Reykjanesvirkjun og eru Grindavík og Bláa lónið einnig tengd þangað.
Heita- og kaldavatnslagnirnar sem liggja undir nýja hrauninu á 600 metra kafla virðast halda vel og lítil merki eru um hitaaukningu í þeim. Nauðsynlegt er að halda miklu rennsli á kaldavatnslögnunum en þær eru úr plasti og virkar rennslið sem kæling.
Lágmarksmannskapur er í Svartsengi og sinnir hann nauðsynlegum verkefnum sem tengjast rekstrinum við þessar aðstæður. Áætlanir gera ráð fyrir óbreyttri stöðu í framleiðslunni um helgina.
Gasmengunarspá Veðurstofunnar var ekki hagstæð fyrir daginn í dag en þó hefur lítið gas mælst við virkjunina það sem af er. Tryggt er að allir sem fara inn á svæðið séu með fullkominn öryggisbúnað á borð við gasmæla og grímur en aðstæður geta breyst hratt og brýnt að starfsmenn og aðrir séu við öllu búnir. Framkvæmdir við stækkun og endurbætur Svartsengisvirkjunar liggja niðri í dag en vonir standa til þess að vinna getist hafist á ný eftir helgi.
Lagnir undir hrauni halda vel
Rekstur orkuvera HS Orku á Reykjanesi hefur gengið tíðindalaust fyrir sig síðasta sólarhringinn og þótt eldgosið við Sundhnúksgíga sé stöðugt virðist það ekki ætla að hafa frekari áhrif á innviði í bráð.