Í samstarfi við almannavarnir og fjölmarga aðila leggur HS Orka nú allt kapp á að tryggja samfelldan rekstur á heitu vatni á Suðurnesjum. Það er gert með ýmsum aðgerðum í samræmi við áherslur almannavarna. Varnir Njarðvíkuræðarinnar fyrir mögulegu hraunrennsli eru þar efst á blaði en auk þess er borun eftir lághita í undirbúningi hjá fyrirtækinu og tiltækar varakyndilausnir þegar í undirbúningi ef þær aðstæður skapast að lagnir fara í sundur á ný.
Strax á mánudag, þegar ljóst var að tenging Njarðvíkuræðarinnar hefði tekist, hóf starfsfólk HS Orku undirbúning hjáveitu fyrir kaldavatnslögn sem liggur undir nýja hrauninu. Samsetning fer fram á svipuðum slóðum og suðuvinnan við hjáveitulögnina um síðustu helgi og verður lögnin tiltæk ef sú gamla gefur sig undir hrauni. Góður gangur er í verkinu og reiknað með að því verði lokið í vikulok. Sjá má myndir af verkstað hér fyrir neðan.
Varnir hitaveitunnar í forgangi
Samhliða er unnið í kapphlaupi við tímann við að koma í veg fyrir að nýtt hraun renni yfir Njarðvíkuræðina og hjáveitulögn hennar, sem lögð var yfir hraunið um helgina. Það er gert í samræmi við niðurstöður og líkangerð frá innviðahópi almannavarna. Þar sem innan við þrjár vikur gætu verið í næsta gos er öll áhersla lögð á að ljúka þeirri aðgerð innan þess tíma. Almannavarnir stýra þessari vinnu en í góðu samráði og samstarfi við starfsfólk HS Orku.
Fallið hefur verið frá því að steypa yfir lögnina eins og rætt var um strax eftir lagningu hennar á mánudag. Mat sérfræðinga er að slík aðgerð gæti stuðlað að frekari hraunsöfnun við varnargarðana auk þess sem hún yrði mjög tímafrek. Nú er horft til þess að verja lögnina með möl og sandi eins og kostur er. Einnig stendur nú yfir vinna við að grafa þann hluta lagnarinnar, sem liggur yfir hraunbrautina, um 30 cm niður í nýja hraunið til að auka við festu hennar.
Borað eftir lághita
Undirbúningur að borun eftir lághita á Njarðvíkurheiðinni, skammt frá Fitjum, er kominn vel á veg. Byrjað verður að bora á svipuðum slóðum og borað var síðast árið 1966, suðaustan við flugvallarsvæðið. Vonast var til að hægt yrði að byrja að bora á allra næstu dögum og er unnið að leyfismálum en ætla má að það taki þrjár til fjórar vikur að klára borun. Stefnt er að því að bora næstu holur einnig á Njarðvíkurheiðinni rétt við Vogshól en leyfismálin þar eru einnig í vinnslu.
Varakyndilausn er þegar í smíðum
Vinna hefur verið sett af stað við að útbúa varmaskiptistöðvar, sem verður hægt að tengja við olíu- eða rafkatla og nýta lághitavatn samhliða til að framleiða heitt vatn. Allur búnaður yrði staðsettur inni í færanlegum gámi sem tekur við köldu ferskvatni og skilar afloftuðu 80°C vatni. Hver gámur getur afkastað um 50 l/s og getur notast eingöngu við olíu- eða rafkatla ef þess þarf. Smíði er þegar hafin á fjórum gámum og áætlað er að það taki um fjórar vikur að setja saman þessa lausn. Þá mun standa út af að tengja gámana við katlana. Það er Vélsmiðjan Héðinn sem sér um smíðina á gámunum.
Forsætisráðherra heimsótti Svartsengi
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Svartsengi á þriðjudag. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri, ásamt Björk Þórarinsdóttur, fjármálastjóra, og Kristni Harðarsyni, framkvæmdastjóra framleiðslu, fóru yfir aðgerðir helgarinnar og sýndu ráðherra aðstæður við hraunbrautina og Njarðvíkuræðina. Einnig var farið að þeim stað þar sem unnið er að hækkun háspennumasturs Landsnets á Svartsengislínu. Ekki bar á öðru en að ráðherra hefði þótt gagnlegt að sjá með eigin augum hvernig umhorfs er í Svartsengi eftir eldsumbrot síðustu viku og heyra hvernig HS Orka brást við atburðarrásinni í kjölfar eldgossins.
Hjáveitulögn undirbúin fyrir kaldavatnslögnina sem er undir nýja hrauninu.