Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

HS Orka með í þróun þörungafóðurs fyrir mjólkurkýr sem draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda

Forsendan fyrir verkefninu er hringrásarhagkerfi Auðlindagarðsins þar sem auðlindastraumar á borð við hraunsíaðan ylsjó og jarðvarma ásamt raforku verða nýttir við framleiðslu þörungafóðurbætisins.

F639ff9a31a3de2a5709062b28c5be4531a2fb68

Nýsköpunarfyrirtækið Lava Seaweed, sem skoðar möguleika á að byggja upp starfsemi í Auðlindagarði HS Orku, hefur skrifað undir samstarfssamning við Norrænu nýsköpunarmiðstöðina, Nordic Innovation, um þróun nýsköpunarverkefnisins CircleFeed. Miðstöðin verður einn helsti samstarfsaðili fyrirtækisins um verkefnið, sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá mjólkurbúum með fóðurbæti fyrir mjólkurkýr, sem framleiddur verður úr sjóþörungum. HS Orka er meðal fjölmargra fyrirtækja og stofnana sem taka þátt í þessu samnorræna nýsköpunarverkefni.

Markmið CircleFeed er að draga úr metanlosun frá mjólkurkúm og minnka þannig kolefnisspor frá framleiðslunni um a.m.k. þriðjung. Forsendan fyrir verkefninu er hringrásarhagkerfi Auðlindagarðsins þar sem auðlindastraumar á borð við hraunsíaðan ylsjó og jarðvarma ásamt raforku verða nýttir við framleiðslu þörungafóðurbætisins.

Einstakt aðgengi að hraunsíuðum ylsjó

Norræna nýsköpunarmiðstöðin hefur það hlutverk að hrinda af stað og fjármagna aðgerðir til eflingar nýsköpun og starfar hún einkum með litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum. Henni er ætlað að greiða fyrir þróun og rekstri fyrirtækja þvert á norræn landamæri. Í fréttatilkynningu sem miðstöðin sendi frá sér í tilefni af undirritun samstarfssamningsins við Lava Seaweed er tiltekið að á Íslandi sé einstakt aðgengi að hraunsíuðum sjó auk aðgengis að endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við jarðhita og raforku. Það sé innblástur Lava Seaweed í CircleFeed verkefninu. Í því leiða saman hesta sína þverfagleg teymi vísindamanna og samstarfsaðilar í orkugeiranum ásamt íslenskum fjárfestum og færeyska fyrirtækinu Faroese Ocean Rainforest, sem býr að langri reynslu í ræktun þörungategunda í Norður-Atlantshafi.

Sigurður Pétursson, forstjóri og einn stofnenda Lava Seaweed, er að vonum ánægður með samninginn: „Þetta er frábært tækifæri til að nýta endurnýjanlegar náttúruauðlindir á Íslandi og leggja þannig okkar af mörkum til að leysa nokkrar af helstu umhverfisáskorununum í matvælaframleiðslu í heiminum í dag. Að draga úr kolefnisspori við framleiðslu mjólkurpróteinafurða er mikilvægur liður í því.“

 

HS Orka meðal fjölmargra samstarfsaðila

Einn af mörgum samstarfsaðilum CircleFeed verkefnisins er HS Orka sem skoðar að staðsetja verkefnið í Auðlindagarðinum þar sem verkefnið fellur vel að framtíðarhugmyndum um hringrásarhagkerfi innan Auðlindagarðsins. Í verkefninu verður kannaður fýsileiki þess að nýta aðgang að borholusjó, jarðhita og raforku frá HS Orku í landeldi á sjóþörungum. Verkefnið felur einnig í  sér að nýta lífrænan úrgang frá starfsemi fiskeldisfyrirtækja í Auðlindagarðinum sem næringarefni við ræktun þörunganna.

Fóðurblöndur CircleFeed verða prófaðar í mjólkurkúm (vivo) og gervikúmaga (vitro) í rannsóknarstofum við Árósarháskóla í Danmörku og danski nautafóðurframleiðandinn DLG mun framkvæma notendaprófanir til að efla vöruþróun og markaðsáætlanir. Öll aðfangakeðja verkefnisins mun gangast undir lífsferilsgreiningu (LCA) sem Konunglegi tækniháskólinn (KTH) í Svíþjóð stýrir. Auk þess mun færeyska rannsóknarstofnunin Sjókovin framkvæma hagkvæmniathugunir í samstarfi við aðila sem framleiða inn á markaði fyrir lífrænar mjólkurafurðir í Evrópu og Norður-Ameríku.