Í dag eru fimmtíu ár liðin frá stofnun Hitaveita Suðurnesja, forvera HS Orku. HS Orka byggir á styrkum stoðum forvera síns, framtíð fyrirtækisins er björt, miklu hefur verið kostað til í nýframkvæmdum á Reykjanesi síðustu ár og spennandi þróunarverkefni í sjálfbærri auðlindanýtingu eru í farvatninu. Tímamótunum er fagnað með fjölbreyttum hætti, s.s. með sögusýningu, málþingi og stefnumótum við ólíkar starfsstöðvar HS Orku.
Samstarf ríkis og sveitarfélaga
Það voru sveitarfélögin á Suðurnesjum sem tóku höndum saman í félagi við íslenska ríkið og 31. desember 1974 var Hitaveita Suðurnesja stofnuð með lögum frá Alþingi. Ríkið lagði til rannsóknarborholur á svæðinu og ýmsar jarðhitarannsóknir en Suðurnesjamenn lögðu fram fjármagn og öflugan mannskap. Var eignarhluti ríkisins ákveðinn 40% en sveitarfélaganna 60% sem skiptist eftir íbúafjölda í sveitarfélögunum þann 1. desember það ár.
Framúrskarandi og lausnamiðað starfsfólk
Á tímamótum er eðlilegt að staldra við og hugleiða hvað stendur upp úr í sögu fyrirtækisins. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri, og Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og staðgengill forstjóra, eru sammála um hvað sé þeim efst í huga: „Það sem hefur einkennt HS Orku síðustu hálfa öld er annars vegar framsýni og frumkvæði framúrskarandi starfsfólks í sífelldri leit að dýpri þekkingu og betri lausnum. Hins vegar er það leiðarstefið sem sett hefur mark sitt á menningu fyrirtækisins, þ.e. sjálfbærni í orkuvinnslu og nýting auðlindastraumanna sem til falla við vinnsluna".
Afmælinu fagnað á ýmsa vegu
Í tilefni afmælisins var ráðist í gerð metnaðarfullrar sögusýningar í Duus safnahúsum í Reykjanesbæ og var sýningin framlag HS Orku til Ljósanætur í ár. Sýningin var opnuð með viðhöfn í byrjun september og mun hún standa í Duus safnahúsum fram til loka marsmánaðar 2025. Þaðan verður hún flutt í gestastofuna Eldey í Reykjanesvirkjun, þar sem henni er ætlaður endanlegur staður.
Hönnunarfyrirtækið Gagarín hafði veg og vanda að hönnun sýningarinnar í góðu samstarfi við HS Orku og þrjá fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins, þá Albert Albertsson, Geir Þórólfsson og Víði Sveins Jónsson, sem veittu dýrmæta aðstoð við gerð handrits sýningarinnar, en allir störfuðu þeir bæði hjá Hitaveitu Suðurnesja og HS Orku á sínum tíma.
Málþing og stefnumót við virkjanir
Með hækkandi sól er stefnt að vönduðu málþingi á vegum HS Orku um þá nýsköpun og útsjónarsemi sem ávallt hefur einkennt þennan hornstein í héraði og mikilvægt framlag fyrirtækisins til íslensks samfélags. Málþingið fer fram á höfuðborgarsvæðinu föstudaginn 21. mars og verður það auglýst betur þegar nær dregur.
Einnig stendur til að kynna ólíkar starfsstöðvar fyrirtækisins betur fyrir almenningi en HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi, en það eru orkuverið í Svartsengi og Reykjanesvirkjun á Reykjanestá, ásamt tveimur vatnsaflsvirkjunum. Önnur þeirra er að Brú í Biskupstungum á Suðurlandi og hin við Seyðisfjörð á Norðausturlandi, þar sem tvær litlar virkjanir sameinast í Fjarðarárvirkjunum. Nú þegar hefur almenningi gefist kostur á að heimsækja Reykjanesvirkjun en í tilefni afmælisins var boðið til stefnumóts við virkjunina þann 1. október s.l. Í bígerð er að gera slíkt hið sama með hinar þrjár virkjanirnar ef og þegar aðstæður leyfa.
Fyrir áhugasama má glöggva sig á sögu Hitaveitu Suðurnesja og HS Orku í samantekt á vefsíðu fyrirtækisins en samantektin endurspeglar einnig vel efnistök afmælissögusýningarinnar í Duus safnahúsunum í Reykjanesbæ.