Hraunflæði ógnar stofnæðum HS Veitna sem liggja frá Svartsengi til Grindavíkur og hefur rafmagn verið tekið af háspennulínum í varúðarskyni. Eldgosið er á svipuðum slóðum og fyrri gos. Hraunrennsli er hratt og virðist enn sem komið er flæða í samræmi við hraunlíkön. Allt viðbragð hefur verið virkjað í framleiðslunni til að bregðast við því ef hraun flæðir á ný yfir lagnir.
Örfáar mínútur tók að rýma Svartsengi í morgun þegar fyrstu viðvaranir um yfirvofandi eldgos bárust um ellefuleytið. Um 50 manns voru við störf á svæðinu, bæði starfsfólk HS Orku og Ístaks, en framkvæmdir við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi standa yfir.
Borholuvöktun HS Orku gaf fyrstu merki um að þrýstingur væri kominn yfir viðmiðunarmörk kl. 11:42 og gaf frá sér a.m.k. tvær viðvaranir til viðbótar áður en gaus kl. 12:47. Mælingarnar sýna hærri hröðun á þrýstingsaukningu og meiri þrýsting en í fyrri gosum.