Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Gýs í áttunda sinn á Sundhnúksgígaröðinni

Eldgos er hafið á Sundhnúksgígaröðinni og er það áttunda eldgosið á gígaröðinni frá því desember 2023.

Vedurstofa Kort 01.04
Kort Veðurstofu Íslands sýnir legu gossprungunnar sem opnaðist laust fyrir kl. 10 í morgun upp af varnargörðunum við Grindavík.

Eldgosið hófst laust fyrir kl. 10 í morgun og er gossprungan, sem orðin er um 1200 metrar að lengd, staðsett austur af fjallinu Þorbirni og nær nú undir varnargarða ofan við byggð í Grindavík.

Rekstur orkuversins í Svartsengi er stöðugur en svæðið var rýmt á áttunda tímanum í morgun í kjölfar þess að borholuviðvörunarkerfi HS Orku og fleiri mælingar sýndu að kvikuhlaup var hafið í gígaröðinni.

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum fært viðbúnað á svæðinu á neyðarstig.

Neyðarstjórn HS Orku er að störfum og fylgist grannt með framvindu mála. Sem stendur stafar orkuverinu í Svartsengi ekki ógn af hraunflæði en orkuverinu er líkt og í fyrri eldgosum fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun.