Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Grænn iðngarður á Reykjanestá

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og HS Orka hafa undirritað samkomulag um grænan iðngarð á Reykjanestá. Verkefnið er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja og miðar að því að skilgreina hentuga umgjörð og samstarfsvettvang þeirra framleiðslufyrirtækja sem nýta auðlindastrauma beint frá Reykjanesvirkjun.

Graenn Idngardur

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og HS Orka hafa undirritað samkomulag um grænan iðngarð á Reykjanestá. Verkefnið er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja og miðar að því að skilgreina hentuga umgjörð og samstarfsvettvang þeirra framleiðslufyrirtækja sem nýta auðlindastrauma beint frá Reykjanesvirkjun. Í samstarfi við sveitarfélög og stofnanir verður sérstaklega horft til þess hvaða kröfum fyrirtækin og samfélag þeirra þurfa að fullnægja til að uppfylla skilyrði um sjálfbærni í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Samfélagið umhverfis Reykjanesvirkjun

Grænn iðngarður er iðngarður þar sem fyrirtæki vinna saman til að styðja við sjálfbærni, deila og fullnýta auðlindir sín á milli í hringrásarhagkerfi, fyrirtækjunum, umhverfinu og samfélaginu til hagsbóta. Úrgangur eins fyrirtækis verður hráefni annars, sem lágmarkar auðlindaþörf og úrgang.

„Ef eitthvað svæði á Íslandi getur skilgreint sig sem grænan iðngarð þá ætti það að vera samfélagið umhverfis Reykjanesvirkjun,“ segir Jón Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar, framfara og Auðlindagarðsins hjá HS Orku. „HS Orka hefur byggt upp mikla þekkingu og reynslu í sjálfbærnimálum og við hlökkum til að deila henni með fleirum.“

Vilji til að stækka svæðið til framtíðar

Í dag eru fyrirtækin Haustak, Laugafiskur og Stolt Sea Farm beintengd HS Orku með ýmsa auðlindastrauma. Fleiri fyrirtæki eru í farvatninu og þeirra stærst er Samherji fiskeldi sem hefur þegar hafið framkvæmdir við undirbúning á eldisgarði í næsta nágrenni við virkjunina. Önnur fyrirtæki eru Sæbýli og Hið Norðlenzka Styrjufjelag sem vinna náið með Stolt Sea Farm. „Við munum leitast við að Svartsengi og fyrirtækin þar í grennd, þeirra á meðal Bláa lónið, geti einnig tekið þátt í þessu samstarfsverkefni sem græni iðngarðurinn verður enda eru nú þegar tengingar milli Reykjanestáar og Svartsengis,“ segir Jón.

Getur orðið leiðarvísir fyrir fleiri

Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, fagnar undirritun samkomulagsins.

„Með þessu móti getum við enn betur en áður deilt þekkingu á sviði sjálfbærni, safnað gögnum og gert þau aðgengileg. Verkefnið gerir okkur auk þess kleift að meta samfélagslegan og efnahagslegan ábata nærsamfélagsins af þessum samstarfsvettvangi fyrirtækjanna á Reykjanestá. “

Berglind er sannfærð um að verkefnið muni ekki einungis koma fyrirtækjunum til góða heldur muni það styrkja svæðið í heild sinni: „Þetta verkefni getur orðið að vegvísi sem hægt verður að nýta víðar um land enda mun græni iðngarðurinn byggja á raunverulegri og praktískri reynslu.“

Í dag starfar um tugur fyrirtækja innan Auðlindagarðs HS Orku sem nýtir auðlindastrauma frá Svartsengis- og Reykjanesvirkjunum. Starfsemi fyrirtækjanna er fjölbreytt og spannar allt frá ferðaþjónustu, fiskeldi og snyrtivöruframleiðslu til þróunar rafeldsneytisframleiðslu.