Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, var heiðursgestur í hófi kvenna hjá HS Orku sem haldið var síðastliðinn fimmtudag í tilefni af fimmtíu ára afmæli fyrirtækisins. Hófið var haldið í nýlegum húsakynnum fyrirtækisins í Turninum í Kópavogi og var félögum í KÍO, félagi kvenna í orkumálum, sérstaklega boðið.
Um 70 gestir hlýddu á örerindi fimm kvenstjórnenda HS Orku og komust færri að en vildu og myndaðist biðlisti á viðburðinn. Erindin gáfu góða innsýn í starfsemi fyrirtækisins en að þeim loknum áttu Halla og Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og staðgengill forstjóra, fróðlegt arinspjall. Halla deildi því meðal annars hvernig það hefur verið að takast á við nýtt og krefjandi hlutverk sem forseti Íslands og hvaða sýn hún hefur á það hvernig Íslendingar geta beitt áhrifum sínum á alþjóðavettvangi, til að mynda þegar kemur að sjálfbærri orkunýtingu.
Glatt var á hjalla í Turninum eins og meðfylgjandi myndir sýna sem Elísabet Blöndal, ljósmyndari, tók. Gestir gæddu sér á veitingum frá Hjá Höllu í Suðurnesjabæ en nafna forsetans, Halla, var áður með starfsemi sína í Grindavík, í næsta nágrenni við höfuðstöðvar HS Orku í Svartsengi.








