Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Fimmta eldgosinu í Sundhnúksgígum væntanlega lokið

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hafa ákveðið að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig vegna umbrota á Reykjanesi en eldgosinu við Sýlingarfell í Sundhnúksgígaröðinni virðist lokið.

24062024 Gigur Ovirkur
Mynd sem Veðurstofan birti í dag og sýnir að engin virkni virðist lengur vera í gígnum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Almannavörnum sem send var út síðdegis. Öll starfsemi orkuversins í Svartsengi hefur verið með eðlilegum hætti frá því að eldgosið hófst þann 29. maí síðastliðinn.

Í tilkynningu Almannavarna segir að fyrr í dag hafi sést á drónamyndum að virkni í gígnum er engin. Áfram er þó rennsli í þeim hrauntungum sem fóru yfir varnargarð norðan Sýlingarfells en búast má við að rennslið stöðvist á næstunni. Mest virkni er í hrauntungunni lengst til vesturs sem hefur færst áfram um nokkra metra og þykknað á síðustu klukkustundum. Gosórói hefur einnig farið minnkandi á síðustu sólarhringum.

Vinna við að hemja hraunrennslið hefur nú staðið yfir í nokkra daga, bæði með vinnuvélum og hraunkælingu. Þar sem aðstæður hafa breyst hefur hraunkælingu verið hætt og fara næstu dagar og vikur í að meta hvort og þá mögulega hvernig hún virkaði.

Á mánudagsmorgun hefst vinna á ný við að ljúka því verki sem hafið var, að verja Svartsengi enn frekar með varnargarðavinnu. Það er fyrst og fremst tilgangurinn með vinnunni sem er framundan á næstu dögum og vikum. Búið er að gera minni varnargarð fyrir innan þann sem fyrir var og er hraunið komið að honum en þó ekki honum öllum.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra færir öllum þeim þakkir sem komu að þessari vinnu síðustu daga og nætur.

Áfram verður svæðið vaktað af Veðurstofunni og mun Lögreglan á Suðurnesjum sinna vaktinni á staðnum.