Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Besta rekstrarár HS Orku frá upphafi

„Ársuppgjör HS Orku fyrir árið 2022 sýnir að reksturinn er traustur og gefur okkur svigrúm til frekari vaxtar"

OK 08

Árið 2022 var besta rekstrarár í sögu HS Orku hf. Rekstrartekjur námu 10,6 milljörðum króna og aukast um 14,7% á milli ára. Munar þar mestu um hátt álverð og verðhækkanir í kjölfar orkuskorts. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 28,6 milljörðum og eiginfjárhlutfall 41,5% í lok árs.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, er að vonum ánægður með árangurinn: „Ársuppgjör HS Orku fyrir árið 2022 sýnir að reksturinn er traustur og gefur okkur svigrúm til frekari vaxtar. Á grunni Auðlindagarðsins og með sjálfbærni að leiðarljósi búum við í haginn með fleiri langtímasamningum og höfum lagt grunn að metnaðarfullum framtíðarverkefnum á sviði orkuvinnslu. Með þessu móti leggjum við okkar af mörkum til að Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum.“

Lokið var við stækkun Reykjanesvirkjunar og gekk hún með ágætum. Framkvæmdakostnaður var vel innan kostnaðaráætlunar og var virkjunin gangsett þremur mánuðum á undan áætlun. Næsta stórverkefni er endurnýjun og stækkun orkuversins í Svartsengi þar sem fyrsta skóflustungan var tekin í desember. Fjármögnun verkefnisins í Svartsengi var tryggð með aðkomu tveggja erlendra banka og hluthafa félagsins, þrátt fyrir umrót á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Alls fjárfesti HS Orka fyrir rúma 6 milljarða á árinu. Eldgos og jarðhræringar síðasta árs höfðu hvorki áhrif á orkuvinnslu né afkomu ársins.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 4.591 milljón árið 2022 samanborið við 3.581 milljón árið áður og hækkar því um 28,2% á milli ára.

Hagnaður félagsins fyrir tekjuskatt nam 87 milljónum króna á árinu 2022, samanborið við 2.816 milljónir árið 2021. Óinnleystir fjármagnsliðir setja verulegt mark á uppgjörið en í aðalatriðum skýrist munurinn frá fyrra ári annars vegar af 2,4 milljarða króna lækkun gangvirðis innbyggðra afleiða vegna lækkunar álverðs og hins vegar af gengislækkun krónu gagnvart Bandaríkjadal sem nam 1,4 milljarði króna á milli tímabila.

Fastafjármunir jukust um 5,5 milljarða á milli ára og munar þar mestu um nýfjárfestingar vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar. Veltufjármunir jukust um 4 milljarða þar sem handbært fé hækkaði umtalsvert vegna víkjandi hluthafaláns sem veitt var til verkefnisins í Svartsengi.

Vaxtaberandi skuldir jukust um 10,5 milljarða á milli ára. Hækkunin skýrist annars vegar af hækkun fjárfestingaláns vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar og hins vegar af víkjandi hluthafaláni vegna verkefnisins í Svartsengi.

Á árinu 2022 gaf HS Orka út grænan fjármögnunarramma í fyrsta sinn og hefur verkefnasafn fyrirtækisins hlotið hæstu einkunn matsfyrirtækisins Cicero.

Helstu niðurstöður úr ársuppgjöri HS Orku:

  • Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 4.591 milljón árið 2022 samanborið við 3.581 milljón árið áður og hækkar því um 28,2% á milli ára.
  • Rekstrarhagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var 1.461 milljón samanborið við 723 milljónir á árinu 2021 og rúmlega tvöfaldast á milli ára.
  • Rekstrartekjur námu 10,6 milljörðum og aukast um 1,4 milljarða (14,7%) á milli ára.
  • Eigið fé var 28,6 milljarðar í lok árs að teknu tilliti til hlutafjárlækkunar sem nam 1,4 milljörðum.
  • Heildareignir félagsins námu 69 milljörðum í lok árs og efnahagsreikningur félagsins stækkar um 16% milli ára.
  • Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 28,6 milljörðum. Eiginfjárhlutfall er 41,5%. Að meðtöldu víkjandi láni frá hluthöfum er eiginfjárhlutfallið 49,4%.

Sjálfbærniskýrsla HS Orku 2022

HS Orka gefur nú í annað sinn út sjálfbærniskýrslu í samræmi við Global Reporting Initiative (GRI) staðlana og er skýrslan nú aðgengileg á vef HS Orku. Í henni er gerð grein fyrir hinum ýmsu málefnum er varða áhrif HS Orku á umhverfi sitt, samfélag og efnahag á liðnu ári. Þar er einnig að finna val fyrirtækisins á sex heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til innleiðingar í starfseminni.

Stjórn HS Orku

Á aðalfundi þann 26. apríl s.l. voru þessi kjörin í stjórn:

Adrian Pike, stjórnarformaður, Bjarni Þórður Bjarnason, varaformaður, Heike Bergmann, meðstjórnandi og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, meðstjórnandi. Varamenn sem voru kjörnir: Ashley Hough, Mei Niu, Gunnar Jóhannsson og Margrét Sveinsdóttir.

Um HS Orku

HS Orka var stofnað árið 1974 og hefur frá upphafi verið leiðandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku. HS Orka er stærsti orkuframleiðandi á Íslandi í einkaeigu en eigendur eru til helminga Jarðvarmi, félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, og breski innviðafjárfestingasjóðurinn Ancala Partners. Nýsköpun hefur ávallt verið hluti af kjarna fyrirtækisins sem sést best á Auðlindagarðinum, þar sem áherslan er á að nýta affallsstrauma frá virkjunum sem auðlind. HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi auk 9,9 MW rennslisvirkjunar í Biskupstungum.