Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Baráttan um skortinn

„Við þær aðstæður sem nú eru uppi er skilvirkast að stórnotendur, sem nota 80% af orku landsins, hafi hvata til að draga úr notkun þegar þörf krefur. Undirritaður hefur rekið alþjóðlegt fyrirtæki sem tók þátt í slíku með góðum árangri. Sú leið er samfélagslega hagkvæm því með henni fæst sveigjanleiki sem krefst ekki viðbótarfjárfestinga í virkjunum.“

Hsorka Tomas BK212636

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri, skrifar:

Umræða um raforkuöryggi hefur verið áberandi að undanförnu og ekki að ástæðulausu. Íslendingum fjölgar, ferðaþjónustan vex, rafbílum fjölgar og eftirspurn eftir grænni orku eykst. Framleiðsla á raforku hefur hins vegar ekki aukist sem þessu nemur. Í ofanálag hefur tíðarfar verið óhagstætt fyrir uppistöðulón sem veldur því að framboð af raforku er orðið takmarkað.

Við þessar aðstæður er knýjandi að lög tryggi aðgang heimila og smærri fyrirtækja að raforku. Um þetta eru allir sammála. Í ljósi stöðunnar fór atvinnuveganefnd fram með frumvarp á síðustu vikum haustþings þar sem lögfesta átti þessa forgangsröðun.

Fyrsta útgáfa frumvarpins var gölluð. Þar var í stuttu máli kveðið á um að í orkuskorti kæmi það nær alfarið í hlut annarra raforkuframleiðenda en Landsvirkjunar að mæta eftirspurn umfram spár á almennum markaði. Þessir framleiðendur eru HS Orka og ON. Um 60% af allri raforkuframleiðslu landsins, sem Landsvirkjun beinir til stórnotenda, væru stikkfrí.

Þetta er ósanngjarnt eins og lesa mátti úr flestum umsögnum sem bárust um frumvarpið. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins segir til að mynda: „Með hliðsjón af öllu framangreindu mælir Samkeppniseftirlitið gegn því að fyrirliggjandi frumvarp verið óbreytt að lögum. Á þessu stigi máls telur eftirlitið að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, sé til þess fallið að styrkja stöðu Landsvirkjunar á kostnað minni keppinauta og vinna gegn samkeppni.”

Góðar breytingar í meðförum nefndar

Atvinnuveganefnd áttaði sig á vanköntunum og frumvarpið tók góðum breytingum við 2. umræðu í þinginu. Málinu var samt frestað fram yfir áramót. Þá „var ljóst að innan Landsvirkjunar væri vilji til að vinna að farsælli niðurstöðu, þar sem tekið yrði mið af skyldum Landsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi” eins og sagði í fréttum (mbl.is, 17.12.2023 “Afgreiðslu raforkufrumvarps frestað”).

Fljótlega kvað þó aftur við fyrri tón hjá forstjóra Landsvirkjunar sem talaði á ný fyrir fyrstu útgáfu frumvarpsins og tók í greinaskrifum og viðtölum að gefa í skyn „leka á milli markaða“. Ráðist var á undirritaðan og HS Orku með dylgjum og samfelldum rangfærslum í grein á visir.is sem ekki verður setið undir.

Um flest erum við sammála

Enginn efast um að orka sé orðin af skornum skammti hér á landi. Óskilvirkt leyfisveitingaferli er farið að bíta í, bæði hvað varðar virkjanir og flutningskerfi. Landsvirkjun á ekki ein að gegna því hlutverki að sinna orkuöryggi. Þvert á móti er verið að leggja til að farið sé eftir tillögum tveggja vinnuhópa sem hafa unnið að málinu í umboði stjórnvalda. Þar er bent á ýmsar leiðir og til þrautavara að allir framleiðendur leggi til orku jafnt og í hlutfalli við heildarframleiðslu. Sem betur fer tók atvinnuveganefnd þá vinnu til greina og breytti frumvarpinu til samræmis.  Landsvirkjun getur ekki haldið því fram að sú útfærsla leggi fyrirtækinu óvæntar skyldur á herðar því fyrirtækið tók fullan þátt í vinnu ofangreindra vinnuhópa.

Stórnotendur verði hluti af lausninni

Við þær aðstæður sem nú eru uppi er skilvirkast að stórnotendur, sem nota 80% af orku landsins, hafi hvata til að draga úr notkun þegar þörf krefur. Þetta var einmitt tillaga starfshóps á vegum orkumálaráðuneytisins árið 2020. 

Þessi leið er þekkt frá öðrum löndum. Undirritaður hefur rekið alþjóðlegt fyrirtæki sem tók þátt í slíku með góðum árangri. Sú leið er samfélagslega hagkvæm því með henni fæst sveigjanleiki sem krefst ekki viðbótarfjárfestinga í virkjunum. Í nýjum samningum við stórnotendur býður HS Orka nú heimild til endursölu við ákveðnar kringumstæður, m.a. til að undirbúa þetta fyrirkomulag. HS Orka leitast líka við að haga samningum þannig að fyrirtækið standi við skyldur sínar í orkuskorti. 

Landsvirkjun skiptir um skoðun

Í upphafi brást Landsvirkjun illa við þessari leið. Fyrirtækið virtist leggja kapp á að aðskilja stórnotendur frá orkumarkaði og dró upp þá mynd að stórnotendur kappkosti að hafa orku af almenningi með yfirboðum. Þessi heimasmíðaða tilgáta gengur þvert á reynslu undirritaðs og reynslu HS Orku. Við höfum oft samið við viðskiptavini okkar um minni notkun eða endurkaup á eðlilegum kjörum þegar aðstæður hafa kallað á slíkt. 

Nú virðist Landsvirkjun hins vegar hafa skipt um skoðun því fyrir viku auglýsti fyrirtækið eftir orku frá stórnotendum til endurkaups. Með því að gera slíkt upp á sitt einsdæmi er Landsvirkjun að axla ábyrgð á eigin orkusölu, sem er vel.  Annað gæti þó búið að baki.

Hvað óttast Landsvirkjun?

Fyrir okkur sem störfum á raforkumarkaði er ljóst að fyrirhuguð lagasetning er einungis upphafið að því sem gera þarf til að raforkumarkaðurinn á Íslandi geti talist heilbrigður. Koma þarf á gegnsæi og markaðstorgi þar sem aðilar geta átt eðlileg viðskipti sín á milli samhliða skyldum og skorðum þeirra. Slík tilhögun stuðlar að betri nýtingu auðlinda og meira gegnsæi í verðmyndun.  
 
Landsnet hefur stigið stórt skref í þessa átt með því að setja á fót Elmu orkuviðskipti, sem hefur það markmið að koma á fót virkum viðskiptavettvangi raforku á Íslandi. Elmu er ætlað að spegla Nordpool raforkumarkaðinn í Norður-Evrópu en sá markaður þykir til fyrirmyndar á heimsvísu hvað varðar gegnsæi og skilvirkni. Ef allt væri með felldu félli það í hlut slíks óháðs aðila að bjóða út endurkaup frá stórnotendum þegar almenningi stendur ógn af orkuskorti. Getur verið að upphafleg andstaða Landsvirkjunar og síðan fátkenndar tilraunir til endurkaupa bendi til þess að fyrirtækið hafi lítinn áhuga á að taka þátt í og stuðla að hlutlausum og skilvirkum markaði?

Sérkennilegir viðskiptahættir

Framferði Landsvirkjunar á markaði kemur gjarnan spánskt fyrir sjónir. Líkt og HS Orka vakti athygli á fyrir jól keyptu smásalar of mikla orku af Landsvirkjun fyrir janúarmánuð. Því eru ýmsir að bjóða umframorku til sölu þessa dagana. Landsvirkjun  er í lófa lagið að kaupa þá orku til baka og bæta þannig lónsstöðu sína. Það var upphaflega ekki í boði. En í fáti undanfarinna daga ákvað fyrirtækið að bjóða slík endurkaup, þó með því skilyrði að endurkaupin yrðu innborgun inn á dýrustu orkuna! Það er svipað því ef  Vínbúðin myndi bjóða viðskiptavinum sínum að skila bjórflösku en inneignina mætti bara taka út í  dýrasta koníaki.

Svipuðu máli gegnir um svokallaða jöfnunarorku sem notuð er við uppgjör frá áætlunum sölufyrirtækja og raforkuframleiðanda. Landsvirkjun er nánast ein um að geta boðið slíkt. Við núverandi aðstæður ætti að vera mikils virði fyrir orkubúskapinn ef orku er skilað og ekki gengið á forða í lónum. Frá byrjun desembermánaðar hefur Landsvirkjun greitt 0-100kr á MWst fyrir orku sem er skilað en rukkað 12.000-35.000 kr/MWst fyrir orku sem er afhent. Verðmunurinn er fleiri þúsund prósent. Til samanburðar er verðmunur á verðsvæðum Nordpool víðast hvar á bilinu 2%-150% að jafnaði þennan tíma. 

Þetta eru einungis tvö dæmi sem sýna hvernig Landsvirkjun nýtir sér yfirburðastöðu sína á sumum sviðum íslensks orkumarkaðar. Óttast fyrirtækið að missa hana?  

Davíð og Golíat

Það kemur á óvart að Landsvirkjun skuli í greinaskrifum velta vöngum yfir áformum margfalt minna fyrirtækis og gefi í skyn að ef HS Orka eykur sölu til stórnotenda um 30% væri það verulega ósanngjarnt. Til samanburðar má nefna að það er sama orkumagn og Landsvirkjun bætti í sölu til stórnotenda eingöngu á árinu 2022. Frá 2019 til 2022 jók Landsvirkjun árlega orkusölu sína til stórnotenda um svipað magn og HS Orka selur inn á almennan markað á ári. Allan þann tíma hefur verið varað við yfirvofandi orkuskorti sem nú er nálægt því að raungerast.

Á nýlegri síðu Landsvirkjunar um raforkuöryggi er látið að því liggja að „aðrir framleiðendur“ hafi á árinu 2023 aukið kaup á orku frá Landsvirkjun sem þeir hafi svo beint til stórnotenda með því að auka sölu til þeirra án þess að hafa bætt í eigin orkuframleiðslu.  Ekkert af þessu á við HS Orku. Við keyptum minni orku á síðasta ári en árið á undan og jukum framleiðslu.  Aukningin skiptist nokkuð jafnt á almennan markað og á stórnotendur.

HS Orka hefur varið milljörðum í uppbyggingu og aflaukningu virkjana á síðustu árum.  Eins og sakir standa er lítið um virkjunarframkvæmdir á landinu ef frá er talin 22MW stækkun orkuversins okkar í Svartsengi. En skiljanlega falla framleiðslu- og sölutölur HS Orku í skuggann af  Landsvirkjun sem er langstærsti orkuframleiðandinn á Íslandi og stjórnar nánast allri sveiflugetu íslenska orkukerfisins. Sem stendur hafa ákvarðanir þess fyrirtækis mun meiri áhrif á orkuöryggi almennings en gjörðir annarra orkufyrirtækja, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Dylgjur um annað skila engu.

Hvað um neytendur?

Auk þess að tryggja orkuöryggi er brýnt að vernda allan almenning og smærri fyrirtæki gegn hverskyns öfgum í verðlagningu á orku. Öfugt við það sem Landsvirkjun heldur fram er slík vernd almannahagsmuna ekki ósamrýmanleg tilvist virkra markaða. En þá þarf að setja markaðsráðandi aðilum eðlilegar skyldur og skorður. Slíkt er regla frekar en undantekning í flestum löndum sem við berum okkur saman við og nýtist neytendum með því að tryggja eðlilega samkeppni og betri nýtingu á orku. Þar að auki finnast fjölmörg dæmi um árangursríkar aðgerðir til að takmarka orkukostnað heimila.

Það er hlutverk stjórnvalda að sinna þessu. Það gera þau ekki með því að viðhalda yfirburðastöðu Landsvirkjunar á markaði, ríkisfyrirtækisins sem vill svo standa stikkfrítt þegar á reynir.