Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Aukin vöktun á gasi vegna eldgoss

Allt starfsfólk HS Orku og verktakar á virkjanasvæðum í Svartsengi og Reykjanesvirkjun bera handhægan gasmæli sem vaktar styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og aðvarar ef styrkur hækkar.

6F48daeea3d85047bbdf12e8b14f1ef4529ccca0

Á starfssvæðum HS Orku er jafnan fylgst með losun gastegunda sem fylgja starfsemi jarðvarmavirkjana. Nú, þegar eldgos er hafið við Litla-Hrút, hefur vöktunin verið aukin til að tryggja enn betur öryggi starfsmanna og þeirra sem fara um Svartsengi. Staðbundin mælistöð í Svartsengi nýtist einnig við vöktun almannavarna á gasmengun frá eldgosinu.

Frá eldgosi berst margskonar mengun og er hún jafnt í gasfasa sem í föstu formi. Algengast og varhugaverðast er brennisteinsdíoxíð (SO2) sem dreifist með ríkjandi vindátt en styrkur er mestur í næsta nágrenni við eldstöðina. Við jarðvarmavinnslu er það fyrst og fremst brennisteinsvetni (H2S) sem þarf að fylgjast náið með.

Allt starfsfólk HS Orku og verktakar á virkjanasvæðum í Svartsengi og Reykjanesvirkjun  bera handhægan gasmæli sem vaktar styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og aðvarar ef styrkur hækkar. Auk þess bætti HS Orka nýlega við allmörgum öflugri handmælum, svo kölluðum fjórgasmælum, sem mæla fjórar mismunandi tegundir gasa og þar á meðal SO2. Nýtast þeir vel þegar líkur á mengun frá eldgosi aukast. Einnig er staðbundin mælistöð með gagnasöfnun staðsett við höfuðstöðvar HS Orku í Svartsengi og önnur slík við Reykjanesvirkjun. Stöðvarnar eru þannig stilltar að fari gildi yfir 0,5 ppm SO2 fá vakthafandi boð þar um og er þá brugðist við í samræmi við öryggisáætlanir fyrirtækisins.

Almenningi er bent á að ýmsar gagnlegar upplýsingar um loftgæði á Reykjanesi og víðar um land, ásamt leiðbeiningum um viðbrögð við mögulegri gasmengun í lofti, má finna á síðu Umhverfisstofnunar loftgæði.is.

Ljósmynd af eldgosi við Litla-Hrút er birt með leyfi Veðurstofu Íslands. Á hinum myndunum tveimur má annars vegar sjá mælistöð í Svartsengi og hins vegar svokallaðan fjórgasmæli.