Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 8:30-15:30

Alþingi samþykkir gerð varnargarðs við Svartsengi

Alþingi samþykkti í gærkvöldi frumvarp sem heimilar gerð og fjármögnun varnargarða á Reykjanesi til varnar mikilvægum innviðum. Framkvæmdir í nágrenni Svartsengis hefjast í dag en byrjað verður á varnargörðum við norðurenda Sýlingafells og í lægðinni ofan við fellið. Efnisflutningar inn á svæðið stóðu yfir í alla nótt.

DJI 0224

Alþingi samþykkti í gærkvöldi frumvarp sem heimilar gerð og fjármögnun varnargarða á Reykjanesi til varnar mikilvægum innviðum. Framkvæmdir við gerð varnargarðs í nágrenni Svartsengis hefjast í dag, ef heimildir fást, og verður byrjað við norðurenda Sýlingafells og í lægðinni ofan við fellið. Efnisflutningar inn á svæðið stóðu yfir í alla nótt.

Grunnþjónusta við íbúa, fyrirtæki og alþjóðaflugvöll

HS Orka fagnar ákvörðun Alþingis og telur hana mikilvægan lið í því að verja þjóðhagslega mikilvæga innviði í Svartsengi. Þeir innviðir tryggja heitt og kalt vatn til 30.000 þúsund manna samfélags á Suðurnesjum, heimila jafnt sem fyrirtækja og alþjóðaflugvallarins í Keflavík, auk þess að framleiða raforku inn á meginflutningskerfi rafmagns í landinu.

Suðurnesin eru ört stækkandi samfélag

Í umsögn HS Orku til dómsmálaráðuneytisins um frumvarpið undirstrikar Tómas Már Sigurðsson, forstjóri, að orkuverið í Svartsengi sé lykilinnviður í samfélaginu á Suðurnesjum og því sé fyrirtækið hlynnt fyrirhuguðum varnaraðgerðum: „Við fögnum frumkvæði stjórnvalda í þessu máli og teljum réttlætanlegt að reynt verði með öllum tiltækum ráðum að verja mannvirki orkuversins til lengri tíma svo hægt verði að standa vörð um þá grunnþjónustu sem fyrirtækið veitir ört vaxtandi samfélagi hér á Suðurnesjum. Með varnarmannvirkjum verður dregið úr líkum á rekstrartruflunum eða varanlegum skemmdum á orkuverinu ef gýs í næsta nágrenni við Svartsengi.“

Allt kapp lagt á órofna framleiðslu

Frá orkuverinu í Svartsengi er ferskvatni veitt inn á dreifikerfi HS Veitna og Vatnsveitu Grindavíkur, heitu vatni er veitt til HS Veitna inn á dreifikerfi hitaveitu og rafmagn er framleitt inn á flutningskerfi Landsnets. Að jafnaði framleiðir orkuverið um 66 MW auk þess sem framkvæmdir hófust nýverið við endurbyggingu virkjunarinnar sem mun skila 20MW til viðbótar án aukinnar upptektar af jarðhitavökva.
Í umsögn HS Orku segir ennfremur: „ Á undanförnum árum hefur fyrirtækið kappkostað að útbúa eigin viðbragðsáætlanir við ólíkum sviðsmyndum vegna mögulegra náttúruhamfara. Þar hefur öryggi starfsfólks, verktaka og viðskiptavina verið í öndvegi og allar aðgerðir miðað að því að tryggja stöðuga afhendingu á heitu og köldu vatni og órofna rafmagnsframleiðslu við mismunandi kringumstæður.

Horft til jarðsögunnar á Reykjanesskaganum

Í umsögninni er vikið að jarðsögunni á athafnasvæði fyrirtækisins: „HS Orka hefur kynnt sér hugmyndir um gerð varnargarða og leiðigarða og telur að þeir geti aukið til muna líkur á að hægt verði að halda orkuverinu í rekstri í umbrotum sem geta orðið við eða í þekktum sprungukerfum í nágrenni við orkuverið. Er hér horft til sögu eldsumbrota á Reykjanesskaganum. Eldsumbrot þar hafa að jafnaði staðið yfir í lengri tíma og því gætu varanlegir varnar- og leiðigarðar orðið lykilaðgerð til að verja orkuverið og kerfi þess til lengri tíma. “

Í umsögninni er jafnframt bent á að vinnslusvæði ferskvatns í Lágum og jarðhitakerfið á Svartsengis-Eldvarpasvæðinu geyma öflugar auðlindir sem munu standa undir lykilstraumum ferskvatns- og hitaveitu til langrar framtíðar.

Tillit skal tekið til umhverfis og einkenna landslags

Að endingu leggur HS Orka ríka áherslu á það í umsögn sinni að við hönnun og byggingu fyrirhugaðs varnargarðs verði tekið tillit til umhverfis á svæðinu og reynt að laga garðinn að einkennum landslags og yfirborðs lands. Einnig þarf að huga að lagnabeltum HS Orku og þjónustuvegum á svæðinu þar sem hugsanlegur garður mun fara yfir.